Fótbolti

Argentína á toppinn í Suður-Ameríku

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Messi fagnar marki sínu í gær.
Messi fagnar marki sínu í gær. Nordic Photos / Getty Images
Það var víðar spilað í undankeppni HM 2014 en í Evrópu í gær. Í nótt fóru fram fjölmargir leikir í Ameríkuálfunum.

Í Suður-Ameríkuriðlinum tyllti Argentína sér á toppinn með góðum 3-1 heimasigri á Paragvæ. Argentína er með þrettán stig á toppi riðilsins, einu meira en Síle og Ekvador.

Þetta var sjötti sigur Argentínumanna í röð en þeir Angel Di Maria, Gonzalo Higuain og Lionel Messi komust allir á blað í leiknum. Messi skoraði beint úr aukaspyrnu og er það í fyrsta sinn sem hann gerir það í landsleik.

Messi hefur oft verið gagnrýndur fyrir frammistöðu sína með landsliðinu en hann hefur verið í miklum ham að undanförnu og skorað alls tíu mörk í síðustu sex landsleikjum.

Kólumbía vann 4-0 sigur á Úrúgvæ og einn heitasti framherji heims, Falcao, skoraði tvívegis fyrir sína menn. Úrúgvæ datt niður í fjórða sætið með tapinu en Kólumbía er í því fimmta.

Í Mið- og Norður-Ameríku máttu Bandaríkjamenn sætta sig við 2-1 tap fyrir Jamaíku. Jürgen Klinsmann er þjálfari bandaríska liðsins sem náði sér aldrei á strik í leiknum.

Spilað er í þremur riðlum og tvö efstu úr hverjum komast áfram í lokaumferð undankeppninnar þar sem sex lið spila í einum riðli. Ekki er búist við öðru en að sterkustu lið álfunnar, þar með talið Bandaríkin, eigi greiða leið þangað.

Úrslit næturinnar:

Suður-Ameríka:

Kólumbía - Úrúgvæ 4-0

Ekvador - Bólivía 1-0

Argentína - Paragvæ 3-1

Perú - Venesúela 2-1

Mið- og Norður-Ameríka:

A-riðill:

Jamaíka - Bandaríkin 2-1

Gvatemala - Antígva og Barbúda 3-1

B-riðill:

El Salvador - Gvæjana 2-2

Kostaríka - Mexíkó 0-2

C-riðill:

Kúba - Hondúras 0-3

Kanada - Panama 1-0




Fleiri fréttir

Sjá meira


×