Íslenski boltinn

Björn Orri hætti vegna meiðsla | Sagt að harka þetta af mér

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Björn Orri, lengst til vinstri, eftir að hann samdi við Fram árið 2008.
Björn Orri, lengst til vinstri, eftir að hann samdi við Fram árið 2008.
Björn Orri Hermannsson þurfti að leggja skóna á hilluna vegna ökklameiðsla aðeins 22 ára gamall. Hann fór yfir feril sinn í ítarlegu viðtali sem birtist í Mannlífi í síðustu viku.

Björn Orri er uppalinn hjá Fylki en vakti ungur athygli atvinnumannaliða, til að mynda í Englandi og Þýskalandi. Hann samdi á endanum við Ipswich og segir þá reynslu miður skemmtilega, sem og endurkomuna í Fylki á sínum tíma.

„Það var erfitt að koma tilbaka eftir að hafa verið í sviðsljósinu og leiðinlegt hvað það vann á móti mér að hafa verið gæinn sem fór út," sagði hann í viðtalinu.

Björn Orri fékk fá tækifæri hjá Fylki og fór síðan í Fram, þar sem hann svo meiddist á ökkla. Hann var greindur með lítið afrifubrot í ökklanum og sagt að hvíla sig í eina viku. En verkirnir minnkuðu ekki.

„Mér var hins vegar alltaf sagt að harka þetta af mér, þetta væri bara aumingjaskapur og væri aðeins vont fyrst," sagði hann. Þegar hann gat ekki meir krafðist hann þess við Gauta Laxdal, lækni, að fá að gangast undir speglunaraðgerð.

„Svo vakna ég eftir speglunina í risastóru gifsi og sé að Gauti er hálfskömmustulegur," segir Björn Orri en í ljós hafði komið að brotið í ökklanum hafði tætt sin í ökklanum í sundur.

„Það voru mjög blendnar tilfinningar að vakna eftir aðgerðina. Annars vegar hugsaði ég að ferillinn væri í hættu en hins vegar að ég væri þó allavega ekki mesti aumingi sem hefði stigið á knattspyrnuvöllinn. Læknirinn, þjálfarinn og sjúkraþjálfarinn voru allir búnir að segja mér í fimm mánuði að þetta væri aumingjaskapur. Auðvitað fer það inná mann," sagði hann meðal annars.

Þess má geta að Björn Orri er bróðir Hjartar Hermannssonar, sautján ára leikmanns PSV í Hollandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×