Alfreð Finnbogason var á skotskónum með sænska liðinu Helsingborg í kvöld þegar að liðið gerði 1-1 jafntefli við Kalmar.
Alfreð kom sínum mönnum yfir með marki á 41. mínútu en hann var svo tekinn af velli sjö mínútum fyrir leikslok, skömmu eftir að Kalmar jafnaði metin.
Alfreð hefur nú skorað fimm mörk fyrir Helsingborg í ellefu leikjum á tímabilinu og er markahæsti leikmaður liðsins.
Þá fór illa fyrir Gunnari Heiðari Þorvaldssyni og félögum í Norrköping sem steinlágu fyrir Häcken á útivelli, 6-0. Abdul Majeed Waris skoraði fimm mörk fyrir Häcken en Gunnar Heiðar spilaði allan leikinn.
Helgi Valur Daníelsson var ekki í leikmannahópi AIK sem gerði 2-2 jafntefli við Örebro á útivelli. Eiður Aron Sigurbjörnsson var ekki í hópnum hjá Örebro en hann hefur ekkert fengið að spila á leiktíðinni.
Helsingborg er í fjórða sæti deildarinnar með sautján stig, Norrköping því fimmta með sextán og AIK í sjötta sætinu með fimmtán stig. Örebro er á botninum með fjögur stig og er liðið enn að bíða eftir fyrsta sigrinum á tímabilinu.

