Innlent

Um 30 konur vilja fara í mál vegna PIP-brjósta

Erla Hlynsdóttir skrifar

Fjöldi þeirra kvenna sem ætla í mál við lýtalækninn Jens Kjartansson vegna sílíkonpúða fer ört vaxandi. Um þrjátíu konur hafa sett sig í samband við lögmann vegna þessa.



Konurnar eru allar með sílíkonpúða frá framleiðandanum PIP. Jens flutti sjálfur inn púðana og setti í um fjögur hundruð konur á árunum 2000 til 2010.



Jens er yfirlæknir lýtalækningadeildar Landspítalans en er með einkastofu á Domus Medica.



Á föstudag höfðu tíu konur fengið Sögu Ýrr Jónsdóttur, héraðsdómslögmann hjá Vox lögmannsstofu, til að undirbúa málsókn á hendur Jens en þær vilja að hann fjarlægi púðana þeim að kostnaðarlausu. Nú, aðeins þremur dögum síðar eru konurnar orðnar þrjátíu.



Saga segist hafa fengið mikinn fjölda símtala frá hræddum konum sem fóru í aðgerð hjá Jens, og býst við að skjólstæðingum sínum eigi enn eftir að fjölga.



Sumar þeirra kvenna sem Saga hefur rætt við eru hræddar um að púðarnir séu farnir að leka, og hafa verið með óþægindi, svo sem verki í brjóstum eða útbrot.



Saga hefur þegar fundað með Jens sem vill reyna að ná sáttum í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×