Fótbolti

Birkir: Margir góðir ungir leikmenn í norska liðinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Birkir Bjarnason í leik með íslenska landsliðinu.
Birkir Bjarnason í leik með íslenska landsliðinu. Mynd/Anton
Birkir Bjarnason þekkir vel til norska liðsins enda bjó hann í Noregi í tólf ár áður en hann hélt til Belgíu á síðasta ári. Nú er hann reyndar kominn til ítalska úrvalsdeildarfélagsins Pescara.

„Það er alltaf jafn gaman að spila gegn Noregi. Maður leggur sig eins mikið fram og maður getur í hverjum leik en þetta er vissulega sérstakt fyrir mig," sagði Birkir.

Norskir fjölmiðlar hafa fjallað mikið um hversu mikil óvissa ríkir í kringum norska liðið, sem hefur verið að ganga í gegnum kynslóðaskipti - rétt eins og íslenska liðið.

„Það eru mikið af ungum leikmönnum að koma inn í liðið. Þetta eru góðir leikmenn og ég tel að norska liðið sé gott. Þó ekki það gott að við eigum ekki séns í þá því ég tel okkar möguleika ágæta."

„Bæði lið spila góðan sóknarleik og því tel ég að varnarleikurinn muni skipta miklu máli. Þetta verður spennandi og harður leikur."

Birkir segist ánægður með dvölina hjá Pescara sem hefur þó tapað fyrstu tveimur tímabilsins með markatölunni 0-6. „Þetta hefur ekki byrjað nógu vel hjá okkur en ég tel að þetta sé gott skref fyrir mig. Ég átti ekki von á því að fara svo fljótt frá Belgíu en þetta var tækifæri sem var erfitt að hafna."

Hann á von á því að Pescara muni fyrst og fremst berjast fyrir því að halda sæti sínu í deildinni. „Þetta er mjög sterk deild og við sjáum bara til hvernig það gengur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×