Fótbolti

Semb: Ísland mun betra með Lagerbäck

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Nils Johan Semb, fyrrum landsliðsþjálfari Noregs, segir að það hafi verið mikill happafengur fyrir íslenska landsliðið að hafa ráðið Lars Lagerbäck sem þjálfara.

Semb og Lagerbäck mættust nokkrum sinnum þegar Semb var þjálfari Noregs og Lagerbäck stýrði Svíum. Svíar náðu reyndar aldrei að leggja Norðmenn að velli þegar liðið lék undir stjórn Lagerbäck.

Semb segir í viðtali við norska fjölmiðla að hann hafi þekkt Lagerbäck í 20 ár og að þeim hafi alltaf verið vel til vina. Lagerbäck bauð til að mynda Semb að fylgjst með undirbúningi sænska landsliðsins fyrir úrslitakeppni HM 2002.

„Íslenska landsliðið er mun betra með Lars Lagerbäck sem landsliðsþjálfara," sagði Semb við vg.no. „Lagerbäck er leiðtogi. Hann virtist alltaf svolítið litlaus utan frá en þannig var honum alltaf lýst í sænskum fjölmiðlum."

„En innan hópsins er allt annað að sjá til hans. Hann er rólegur og í góðu jafnvægi en skilaboð hans eru mjög skýr. Hann er ekki fyrirferðamikill en honum ferst það mjög vel úr hendi að skapa jafnvægi innan leikmannahópsins."

„Lið undir hans stjórn eru mjög skipulögð og spila þéttan varnarleik. Hann er mjög sænskur og vill spila 4-4-2 eins og Svíarnir elska. Hann er upptekinn af því að sóknarmennirnir nái vel saman og spili vel sín á milli. Hann vill koma boltanum á framherjana, til baka út á kantinn og svo inn í teig. Það er útgangspunkturinn."

„Hann hefur bara fengið þrjá [fimm, innsk. blm.] leiki með íslenska landsliðinu og ómögulegt að segja hversu mikil áhrif hann hefur haft á liðið á þessum stutta tíma."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×