Fótbolti

Lagerbäck: Erum með betri leikmenn en Heiðar í liðinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Marki Heiðars gegn Portúgal árið 2010 fagnað.
Marki Heiðars gegn Portúgal árið 2010 fagnað. Mynd/Anton
Lars Lagerbäck ræddi ekki við Heiðar Helguson um þann möguleika að gefa kost á sér í næstu tvo landsleiki vegna meiðsla þeirra Kolbeins Sigþórssonar og Björns Bergmanns Sigurðarsonar.

Aron Einar Gunnarsson, liðsfélagi Heiðars hjá enska B-deildarliðinu Cardiff, var spurður á blaðamannafundi í gær hvort að hann hafi rætt við Heiðar um að koma aftur í landsliðið.

„Ég spurði hann fyrir um tveimur vikum síðan og hann sagði að hann væri alveg hættur. Enda orðinn of gamall," sagði Aron í léttum dúr. „Það eru margir leikir fram undan í vetur og ef hann ætlar að spila á fullu getur hann ekki verið með landsliðinu líka."

Lagerbäck sagðist hafa rætt við Heiðar um þetta á sínum tíma og fengið svipuð svör. „Heiðar hefur hlaupið mikið á ferlinum og er orðinn þreyttur," sagði Lagerbäck.

„Hann sagði þó að ég mætti ræða við hann ef það væri mikið um meiðsli í hópnum. En ég hef ekki rætt við hann nú því ég tel að við séum með betri leikmenn í hópnum en hann eins og málin standa nú. Ég er ánægður með þá leikmenn sem við erum með."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×