Fótbolti

Zlatan kominn með sjö mörk í fyrstu fimm leikjunum með PSG

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Svíinn Zlatan Ibrahimovic skoraði tvö mörk og lagði upp það þriðja þegar Paris Saint-Germain vann 4-0 útisigur á Bastia í frönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í gær. Zlatan hefur þar með skorað sjö mörk í fyrstu fimm deildarleikjum sínum með PGS.

Zlatan skoraði tvö mörk í fyrsta leiknum á móti Lorient, tvö mörk í útisigri á Lille, eitt mark í heimasigri á Toulouse og svo mörkin tvo á móti Bastia í gær. Hann er þegar kominn með þriggja marka forskot á næsta mann.

Paris Saint-Germain hefur nú unnið þrjá deildarleiki í röð en jafnteflin í þremur fyrstu umferðunum þýða að liðið er enn bara í 3. sætinu á eftir Marseille og Lyon sem spila bæði í dag. Marseille hefur unnið fimm fyrstu leiki sína og Lyon aðeins tapað tveimur stigum.

„Ég er alltaf að spila betur og betur. Þegar liðið spilar vel þá spila ég vel," sagði Zlatan Ibrahimovic í sjónvarpsviðtali eftir leikinn.

Zlatan lagði upp fyrsta markið fyrir Jérémy Ménez á 6. mínútu og skoraði síðan annað markið sjálfur á 40. mínútu eftir flottan þríhyrning við Marco Verratti. Seinna mark Zlatan Ibrahimovic kom síðan á lokamínútunni eftir að hann slapp einn í gegn. Það er hægt að sjá mörkin hans með því að smella hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×