Enski boltinn

Brendan Rodgers: Liverpool óttast ekki Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brendan Rodgers, stjóri Liverpool.
Brendan Rodgers, stjóri Liverpool. Mynd/Nordic Photos/Getty
Brendan Rodgers, stjóri Liverpool, segir sína menn óttast ekki Manchester United fyrir leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni í dag. Leikurinn hefst klukkan 12.30 að íslenskum tíma og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 og Sport 2 HD.

Liverpool hefur aðeins náð í 2 stig í fyrstu 4 deildarleikjum sínum undir stjórn Brendan Rodgers en stjórinn er viss um að sínir menn geri góða hluti á móti erkifjendunum á Anfield í dag.

„Liverpool óttast ekki Manchester United. Ef þú ert hræddur þá getur þú ekki tekið næstu skref og ef þú ert hræddur þá gerir þú ekki nóg af því sem þarf til að vinna. Ég reyni alltaf að senda mitt lið út á völl á jákvæðum nótum," sagði Brendan Rodgers í viðtali hjá Liverpool Echo.

„Staðreyndin er sú að það eru bara búnir fjórir leikir af tímabilinu og ég hef miklu meiri áhyggjur af því hvar við verðum í töflunni í maí og hvort liðið hafi þá tekið skref í rétta átt," sagði Rodgers.

„Þetta verður erfiður leikur en ég er ánægður að sjá liðið mitt verða betra og betra með hverjum deginum. Ef við náum að vinna United þá gæfi það okkur mikinn kraft í framhaldið. Liðið hefur verið að spila vel en við þurfum bara einn sigur til að komast í gang og þá getum við komist á flug," sagði Rodgers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×