Fótbolti

Geir: Eins og að skora sjálfsmark fyrir leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Geir Þorsteinsson.
Geir Þorsteinsson. Mynd / Anton
„Við erum að reyna að tefla fram okkar sterkasta knattspyrnuliði á eftir. Aron Einar er hluti af því liði," sagði Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, við Vísi nú síðdegis.

Klukkan 17.00 hefst leikur Albaníu og Íslands í undankeppni HM 2014. Aron Einar Gunnarsson er skipaður landsliðsfyriliði en í gær lét hann hafa eftir sér ummæli þar sem hann sagði að Albanir væru mestmegnis glæpamenn.

Síðan þá hefur Aron Einar beðist afsökunar á ummælum sínum en Geir staðfesti að hann verði í liði Íslands á eftir og að hann muni bera fyrirliðaband Íslands.

Sagt var frá því í útvarpsfréttum Rúv klukkan 15.00 að Geir hafi átt fund með formanni albanska knattspyrnusambandið um málið. Vísir greindi einnig frá því en það reyndist ekki rétt.

„Ég veit ekki hvaðan þessi frétt kom. Við funduðum vissulega í hádeginu en þá var ég ekki búinn að fá þessar fréttir af ummælum Arons. Síðan þá hef ég ekki fundað með honum," sagði Geir, sem staðfesti svo að Aron muni spila í dag.

„Við fórum yfir það áðan en við höfum ekki haft mikinn tíma [til að taka ákvörðun]. Við erum að fara í mikilvægan leik. Í hópíþrótt hefur einn leikmaður áhrif á allan hópinn."

„Það er ekki hægt að einangra bara eitt dæmi. Það er búið að undirbúa liðið fyrir þennan leik alla vikuna og við þurfum að gera okkar besta í þessum leik," sagði Geir.

„Við tókum því þá ákvörðun að hann muni spila leikinn og vera fyrirliði. Það er ekkert af þessu auðvelt. Hann þarf að draga lærdóm af þessu og við allir. En þessu máli er engan veginn lokið."

Kom ekki til greina að setja knattspyrnulega hagsmuni til hliðar og draga Aron úr liðinu vegna ummæla sinna?

„Það eru ýmsar hliðar á þessu máli. Við erum að tefla fram okkar sterkasta knattspyrnuliði á eftir. Aron er hluti af því liði. Aron hefur beðist afsökunar en þessu máli er ekki lokið."

„Ég legg áherslu á að þetta er hópíþrótt. Við erum með ellefu manna lið sem er búið að undirbúa rækilega. „Hvort þessi ákvörðun er rétt eða röng - það veit ég ekki. Við verðum að sjá til eftir leikinn. Ef þetta mál er komið í umhverfið hér úti þá mun engu máli skipta hvaða leikmaður muni fara fyrir íslenska liðinu út á völlinn. Það verður mótbyr."

Geir segir að hann muni setjast niður með Lars Lagerbäck landsliðsþjálfara eftir leikinn. „Þjálfari liðsins skipar fyrirliðann. En þú getur rétt ímyndað þér að það er enginn ánægður með þessa stöðu sem upp er komin. Það er nánast eins og að liðið hafi gert sjálfsmark áður en leikurinn byrjaði."

Geir vissi ekki hvort að fjölmiðlar ytra eða knattspyrnusamband Albaníu vissi af ummælunum. „Ég get ekki sagt það á þessari stundu," sagði hann.


Tengdar fréttir

Aron Einar biðst afsökunar

Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson hefur beðist auðmjúklega afsökunar á óviðeigandi ummælum sem hann lét falla um Albana á vefsíðunni fótbolti.net.

Afsökunarbeiðni Arons Einars

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann harmar ummæli sín um albönsku þjóðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×