Fótbolti

Þjóðverjar slátruðu Írum | Zlatan bjargaði Svíum gegn Færeyingum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Zlatan skoraði sigurmark Svía í dag.
Zlatan skoraði sigurmark Svía í dag. Nordic Photos / Getty Images
Færeyingar voru ekki langt frá því að ná óvæntum úrslitum gegn Svíum í undankeppni HM 2014. Þeir komust yfir í leiknum en urðu að lokum að sætta sig við naumt tap.

Rógvi Baldvinsson skoraði mark Færeyja á 57. mínútu en leikurinn fór fram í Þórshöfn í Færeyjum. Alexander Kaciniklic jafnaði metin á 65. mínútu en hann hafði komið inn á sem varamaður aðeins þremur mínútum áður.

Það var svo fyriliðinn Zlatan Ibrahimovic sem skoraði sigurmark Svía þegar stundarfjórðungur var til leiksloka.

Írar rassskelltir á heimavelli gegn Þjóðverjum
Írar sáu ekki til sólar gegn Þjóðverjum á Dublin Park í kvöld.Nordicphotos/Getty
Þjóðverjar gerðu góða ferð til Dublin þar sem Írar voru teknir í bakaríið 6-1. Marco Reus, leikmaður Borussia Dortmund, skoraði tvívegis í fyrri hálfleiknum og sá til þess að gestirnir leiddu 2-0 í hálfleik.

Í síðari hálfleiknum opnuðust flóðgáttirnar og hafði Keiren Westwood, markvörður Íra, varla við að sækja knöttinn í net sitt. Mesut Özil og Miroslav Klose skoruðu hvor sitt markið áður en komið var að varamanninum Toni Kroos.

Vonarstjarna Þjóðverjanna skoraði tvö mörk á tuttugu mínútum. Allt stefndi í 6-0 sigur gestanna en varamaðurinn Andrew Keogh minnkaði muninn fyrir liðsmenn Giovanni Trapattoni í viðbótartíma.

Þjóðverjar eru á toppi riðilsins með níu stig að loknum þremur leikjum. Lærisveinar Joki Löw í virkilega góðum málum en þeir taka á móti Svíum í Berlín á þriðjudagskvöldið. Svíar eru í öðru sæti með sex stig úr tveimur leikjum sínum.

Öll úrslit kvöldsins má sjá í Miðstöð boltavaktarinnar, smellið hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×