Fótbolti

Gylfi: Vildum stela sigrinum í lokin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Vilhelm
Gylfi Þór Sigurðsson reyndist hetja íslenska liðsins í kvöld, en hann tryggði Íslandi 2-1 sigur á Albaníu ytra með glæsilegu marki beint úr aukaspyrnu þegar um tíu mínútur voru eftir af leiknum.

„Þetta var mjög erfiður leikur og aðstæðurnar ekki síður. Það var því ansi fínt að fara héðan heim með þrjú stig," sagði Gylfi við Vísi eftir leikinn í kvöld.

Það rigndi mikið á meðan leiknum stóð í gær og var síðari hálfleik frestað um 20 mínútur á meðan dómarar og eftirlitsmenn mátu hvort hægt væri að láta leikinn halda áfram.

„Við hefðum þess vegna getað sleppt því að undirbúa okkur fyrir þennan leik því þetta breyttist allt þegar það byrjaði að rigna. Undir lok fyrri hálfleiks sáum við varla til næsta manns vegna rigningarinnar."

„En þegar ákveðið var að halda áfram þá lögðum við áherslu á að verja stigið okkar og reyna að stela sigrinum með marki undir lokin. Það gekk eftir."

Hann neitar því ekki að hann hafi verið afar feginn þegar flautað var til leiksloka.

„Þetta er einn sá erfiðasti leikur sem ég hef spilað. En það er líka mikilvægt að geta unnið svona „ljóta" sigra með því að berjast og gera einfaldlega það sem þarf að gera."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×