Fótbolti

Þjálfari Noregs: Ég sé þær örugglega aftur í Svíþjóð

Óskar Ófeigur Jónsson í Osló skrifar
Katrín Ómarsdóttir er hér í baráttu við hina öflugu Sólveigu Gulbrandsen sem var í lykilhlutverki með norska liðinu í gær.
Katrín Ómarsdóttir er hér í baráttu við hina öflugu Sólveigu Gulbrandsen sem var í lykilhlutverki með norska liðinu í gær. nordic photos/aFP
Íslenska kvennalandsliðið þarf að fara sömu leið inn á Evrópumótið og fyrir fjórum árum eftir 1-2 tap á móti Noregi í Osló í gærkvöldi. Fótboltinn getur oft verið ósanngjarn og það fengu íslensku stelpurnar að kynnast á Ullevaal leikvanginum.

Íslenska liðið var lengstum með öll völd á vellinum á meðan heimastúlkur lögðust í skotgrafirnar og treystu á föst leikatriði. Jöfnunarmarkið lét ekki sjá sig en þrátt fyrir allt svekkelsið í leikslok geta stelpurnar okkar verið stoltar af leik sínum í gær.

Allt breyttist á 39. mínútu leiksins þegar Maren Mjelde, fyrirliði norska liðsins, fiskaði ódýra aukaspyrnu og norska liðið fékk stórhættulegt færi á silfurfati hjá þýska dómaranum. Mjelde skoraði í framhaldinu af stuttu færi eftir flotta sendingu fyrir markið frá Solveig Gulbrandsen. Markið stuðaði greinilega íslensku stelpurnar mikið og það tók norska liðið aðeins tæpar þrjár mínútur að bæta við öðru marki. Elise Thorsnes skoraði þá með frábæru skoti.

„Síðustu fimm mínúturnar í fyrri hálfleik voru ekki góðar og við missum einbeitinguna tvisvar sinnum og er refsað í bæði skiptin. Góð lið gera það," sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari. Honum tókst þó að rífa íslensku stelpurnar upp eftir þetta áfall.

„Við ræddum um að við þyrftum að spýta í lófana og spila boltanum meira. Það var of mikið af löngum sendingum fram völlinn í fyrri hálfeik. Við ætluðum að sýna karakter í seinni hálfleik og sýna hvað við gætum. Mér fannst liðið bregðast ótrúlega vel við því. Við uppskárum fallegt mark og við hefðum getað skorað fleiri. Ég var alltaf að bíða eftir því að við myndum jafna leikinn," sagði Sigurður Ragnar.

Íslenska liðið tók öll völd á vellinum í seinni hálfleiknum og Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði frábært mark á 65. mínútu eftir stórkostlega sókn. Katrín Ómarsdóttir, besti leikmaður íslenska liðsins, bjó á endanum til skotfærið með sniðugri snertingu og Margrét Lára afgreiddi boltann í bláhornið frá vítateigslínunni.

Íslenska liðið var þar með komið aftur inn í leikinn en gekk áfram illa að finna leiðir í gegnum þéttan varnarleik norska liðsins þrátt fyrir að vera áfram miklu meira með boltann. Íslenska liðið fékk nokkur ágæt skotfæri fyrir utan teig á lokamínútunum en þetta eina gullna tækifæri kom aldrei og því urðu stelpurnar að sætta við sárgrætilegt tap.

Eli Landsem, þjálfari norska landsliðsins hrósaði líka íslenska liðinu í leikslok og viðurkenndi að sínar stelpur hafi verið heppnar í leiknum.

„Þetta var mjög erfiður leikur því Ísland er með gott lið. Við erum mjög ánægðar og um leið heppnar að hafa unnið þennan leik. Leikskipulagið okkar gekk fullkomlega upp," sagði Landsem en hún var farin að hugsa að breytingum í lok fyrri hálfleiks þegar allt stefndi í 0-0 stöðu í hálfleik.

„Það var mikilvægt að fá þessi mörk undir lok fyrri hálfleiksins. Við vorum mjög heppnar því ég var þegar farin að hugsa um hvernig ég þyrfti að breyta liðinu mínu til að fá mörk því við urðum að vinna leikinn. Eftir að við fengum þessi mörk þá gátum við haldið áfram með okkar skipulag," sagði Landsem en hvernig heldur hún að íslenska liðinu gangi í umspilinu.

„Ég er viss um að ég sé íslenska liðið á EM í Svíþjóð næsta sumar," sagði norski þjálfarinn og það er vonandi að hún hafi rétt fyrir sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×