Fótbolti

Halmstad tapaði dýrmætum stigum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón Baldvinsson og Kristinn Steindórsson spiluðu báðir allan leikinn þegar að Halmstad gerði 2-2 jafntefli við Varberg í sænsku B-deildinni í kvöld.

Halmstad hefði með sigri jafnað Brommapojkarna að stigum í öðru sæti deildarinnar en er nú tveimur stigum á eftir með 55 stig. Öster er í efsta sæti deildarinnar með 64 stig og nánast öruggt með úrvalsdeildarsætið.

Efstu tvö lið deildarinnar komast upp en liðið í þriðja sæti þarf að fara í umspil. Halmstad er öruggt með þriðja sætið en þrjár umferðir eru eftir af tímabilinu.

Þá var einn leikur í norsku úrvalsdeildinni í kvöld. Brann tók á móti Hönefoss og vann dramatískan sigur, 3-2, með tveimur mörkum á lokamínútum leiksins.

Birkir Már Sævarsson spilaði allan leikinn fyrir Brann, sem og þeir Kristján Örn Sigurðsson og Arnór Sveinn Aðalsteinsson fyrir Hönefoss. Kristján Örn lék áður með Brann í nokkur ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×