Fótbolti

Írakar velja á milli Sven-Göran og Maradona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sven-Göran Eriksson.
Sven-Göran Eriksson. Mynd/Nordic Photos/Getty
Diego Maradona hefur sýnt því mikinn áhuga á að gerast landsliðsþjálfari hjá Írak en svo gæti farið að Svíinn Sven-Göran Eriksson "steli" starfinu af honum.

Írakar eru að leita að eftirmanni Brasilíumannsins Zico sem hætti skyndilega að þjálfa landsliðið á dögunum. Írak er í harðri baráttu við Ástralíu um sæti á HM 2014.

Hernan Tofoni, umboðsmaður Maradona, segir að nafn Eriksson hafi komið inn á borð á 30 manna fundi meðlima í stjórn knattspyrnusambands Íraka en þá hafi sambandið þegar verið búið að ákveða að ræða við Argentínumanninn.

„Þeir eru áhugasamir um að Diego þjálfi liðið en einhverjir komu með hugmynd um að ræða líka við Eriksson og þetta mun því ekki skýrast fyrr en í næstu viku. Við förum til Dúbæ í næstu viku," sagði Hernan Tofoni.

Maradona þjálfaði síðast lið Al Wasl í Sameinuðu arabísku furstadæmunum en hann stýrði Argentínumönnum á HM 2010 í Suður-Afríku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×