Fótbolti

Napólí missir tvö stig í deildarkeppninni á Ítalíu

Edinson Cavani er leikmaður Napólí.
Edinson Cavani er leikmaður Napólí. AFP
Ítalska knattspyrnuliðið Napólí, sem leikur í A-deild þar í landi, missir tvö stig í deildarkeppninni vegna dóms þar sem að liðið er grunað um að hafa hagrætt úrslitum. Knattspyrnusamband Ítalíu staðfesti fyrri dóm í þessu máli.

Matteo Gianello markvörður félagsins leikur aðalhlutverkið í þessu máli sem snýr að veðmáli sem hann tók þátt í fyrir leik Napólí gegn Sampdoria árið 2010.

Gianello fékk rúmlega þriggja ára keppnisbann og félaginu er gert að greiða rétt um 12 milljónir kr. í sekt. Gianello er samningslaus í dag og er ekki á mála hjá neinu félagi.

Tveir leikmanna Napólí, Paulo Cannovaro og Gianluca Grava, voru að auki dæmdir í sex mánaða keppnisbann fyrir að hafa vitað af athæfi Gianello. Þeir kusu hinsvegar að þegja og voru því taldir vitorðsmenn í þessu veðmáli. Eftir dóminn fellur Napoli úr þriðja sæti í það fimmta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×