Erlent

Kate Middleton losnar ekki af sjúkrahúsi í bráð

Mikil gleði ríkir meðal Breta eftir að tilkynnt var í gærdag að Kate Middleton hertogaynjan af Cambridge væri ólétt. Við gleðina blandast hinsvegar áhyggjur af heilsufari hertogaynjunnar.

Kate Middleton glímir við alvarlega morgunógleði og liggur nú á King Edward sjúkrahúsi í London sökum þess. Ekki er reiknað með að hertogaynjan losni af sjúkrahúsinu í bráð.

William eiginmaður hennar dvaldi lengi með henni á sjúkrabeðinu í gærdag. Einn helsti fæðingarlæknir Breta annast hertogaynjuna en hin alvarlega morgunógleði getur valdið ýmsum vandamálum eins og ofþurrkun.

Í tilkynningu frá konungsfjölskyldunni segir að reiknað sé með að hertogaynjan dvelji á sjúkrahúsinu í töluverðan tíma og þurfi síðan á hvíld að halda. Talið er að hertogaynjan sé komin skemur en 12 vikur á leið en hún sást síðast opinberlega á föstudaginn var þegar hún heimsótti gamla skólann sinn St Andrews í Berkshire.

Þetta fyrsta barn þeirra hjóna verður það þriðja í röðinni til að erfa bresku krúnuna. Raunar gæti verið um börn að ræða því þegar eru komnar upp vangaveltur um að hertogaynjan gangi með tvíbura.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×