Innlent

Leyfisveiting á Drekasvæðinu vekur athygli olíuheimsins

Tilkynning íslenskra stjórnvalda um veitingu sérleyfa til olíuvinnslu á Drekasvæðinu hefur vakið athygli fjölmiðla í Bretlandi og helstu vefmiðla í olíugeiranum. Netmiðill breska útvarpsins, BBC, og skoski miðillinn The Scotsman, eru meðal þeirra sem birt hafa frétt um málið, en einnig viðskipta- og olíufréttamiðlar eins og World-Oil, Natural Gas Europe og Offshore Magazine.

Í frétt BBC er greint frá því að skoska félagið Faroe Petroleum hafi tryggt sér sérleyfi á Drekasvæðinu á landgrunni Íslands. Leyfið sé viðamikið og nái yfir sjö reiti. Vitnað er í talsmenn Faroe Petroleum sem segi að sýnatökur bendi til að þar sé virkt kolvetniskerfi og að fyrirtæki sé „mjög spennt að fá tækifæri til að rannsaka svæðið og lágmarka áhættuna".

„Við erum mjög ánægð að tilkynna innkomu okkar á íslenska landgrunnið, sem er mikilvægt framhald af rannsóknum okkar vestan Hjaltlands, í Noregshafi og í Barentshafi," hefur BBC eftir Graham Stewart, forstjóra Faroe Petroleum, en það er með höfuðstöðvar í Aberdeen, olíuhöfuðborg Bretlandseyja.

„Eins og gildir um norska leyfið okkar í Barentshafi gefur þetta nýja leyfi okkar á íslenska Jan Mayen-hryggnum verulega möguleika á kolvetni og er staðsett á íslausu hafsvæði," segir forstjórinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×