Fótbolti

Ronaldo vill að Guardiola taki við Brasilíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola vann 14 titla með Barcelona.
Pep Guardiola vann 14 titla með Barcelona. Mynd/AP
Mano Menezes var rekinn sem þjálfari Brasilíu í fyrradag og brasilíska knattspyrnusambandið leitar nú eftirmanns hans því framundan er HM á heimavelli árið 2014. Brasilíska knattspyrnugoðsögnin Ronaldo vill að Pep Guardiola, fyrrum þjálfari Barcelona, taki við brasilíska landsliðinu.

„Það missa allir þolinmæðina en þú þarft alltaf að skoða allar hliðar málsins. Ég hefði ekki rekið Menezes en brasilíska landsliðið þarf að komast aftur á skrið," sagði Ronaldo við brasilíska blaðið Globo.

„Við höfum marga frábæra þjálfara í Brasilíu en við verðum að fá einhvern sem getur komið á ró í kringum liðið," sagði Ronaldo.

„Guardiola er besti þjálfari heims í dag. Hann gerði mjög góða hluti hjá Barcelona og yrði frábær kostur fyrir Brasilíu. Það á hinsvegar eftir að koma í ljós hvort brasilíska þjóðin vilji fá hann," sagði Ronaldo.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×