Fótbolti

Sigurður Ragnar: Síður en svo búið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sigurður Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfari.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfari. Mynd/Daníel
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari kvenna, var hæstánægður með 3-2 sigur Íslands á Úkraínu í fyrri leik liðanna í umspili fyrir EM 2013.

Ísland komst í 2-0 forystu með mörkum Katrínar Ómarsdóttur og Hólmfríðar Magnúsdóttur en heimamenn jöfnuðu metin í upphafi síðari hálfleiks. Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði svo sigurmark Íslands.

„Við erum alsæl með þessi úrslit en að sama skapi sáum við að þetta er síður en svo búið," sagði Sigurður Ragnar við Vísi í dag.

„Þetta var erfiður leikur og við þurftum virkilega að hafa fyrir sigrinum. Nú tekur við langt ferðalag heim og við þurfum að mæta vel undirbúin til leiks á fimmtudaginn."

Hann segir að leikurinn hafi verið opinn og skemmtilegur. „Ef til vill var hann aðeins of opinn en við löguðum það í seinni hálfleik. Við höfðum misst dampinn og þær jöfnuðu en mér fannst við sýna góðan karakter með því að koma til baka og skora sigurmarkið."

Síðari leikur liðanna fer fram á Laugardalsvelli á fimmtudagskvöldið en sigurvegari rimmunnar tryggir sér sæti í úrslitakeppni EM sem fer fram í Svíþjóð næsta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×