Íslenski boltinn

Viktor Bjarki eftirsóttur | Stjarnan ekki haft samband

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Daníel
Víkingur hefur mikinn áhuga á að fá Viktor Bjarka Arnarsson til liðs við sig. Samningur Viktors Bjarka við KR rann út fyrr í mánuðinum en fjölmörg félög hafa sýnt honum áhuga.

„Ég ætla að vona að hann komi í Víkina. Við höfum þó ekki enn komist að samkomulagi," segir Heimir Gunnlaugsson varaformaður knattspyrnudeildar Víkings í samtali við Vísi. Viktor Bjarki er uppalinn í Fossvoginum en hélt ungur í atvinnumennsku til Hollands. Hann spilaði aftur með Víkingum árin 2004 og 2006 en síðara árið var hann kjörinn leikmaður ársins á Íslandi.

Samkvæmt heimildum Vísis hefur Viktor Bjarki þegar útilokað að semja við ÍA en Skagamenn sýndu kappanum áhuga. Reykjavíkurfélögin Fram og Valur hafa áhuga á kappanum auk þess sem Fylkismenn hafa verið í sambandi. Viktor Bjarki lék einmitt með Fylkismönnum sumarið 2005 við góðan orðstír.

Samkvæmt heimildum Vísis hefur Stjarnan þó ekki haft samband við Viktor Bjarka. Hávær orðrómur hefur verið uppi um áhuga Garðabæjarliðsins sem mögulega á rætur sínar að rekja til þeirrar staðreyndar að Logi Ólafsson, nýr þjálfari liðsins, fékk Viktor Bjarka til KR á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×