Fótbolti

Ragnar: Aron meinti ekki það sem hann sagði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Edgar Cani skorar hér mark Albaníu í leiknum í kvöld.
Edgar Cani skorar hér mark Albaníu í leiknum í kvöld. Mynd/AP
Ragnar Sigurðsson, leikmaður íslenska landsliðsins, sagði það hafa verið erfitt að spila í rigningunni í Albaníu í kvöld.

Ísland vann leikinn, 2-1, en um tíma leit út fyrir að fresta þyrfti leiknum vegna veðurs.

„Sem varnarmaður geta svona aðstæður verið sérstaklega erfiðar, þar sem maður veit aldrei hvaða bolta maður á að vaða út í. Við þurftum því að vera á tánum og tilbúnir í hvað sem er," sagði Ragnar í samtali við Vísi í kvöld.

Hann segir að leikurinn fari ekki í sögubækurnar sem dæmi um góða knattspyrnu.

„Það er ekki hægt að spila alvöru fótbolta við svona aðstæður. Fyrstu 15-20 mínúturnar í seinni hálfleik þorðum við varla að senda boltann á milli okkar. Þá var ekkert annað að gera en að dúndra fram."

Hann segir að leikmenn séu hæstánægðir með uppskeruna – sex stig að loknum fyrstu þremur leikjunum.

„Við erum gríðarlega ánægðir. Við vissum að við gætum gert þetta og sýndum það í kvöld. Við höfum staðið við stóru orðin og ætlum að gera það áfram."

Aron Einar Gunnarsson baðst fyrr í dag afsökunar á ummælum sem hann hafði um albönsku þjóðina. Ragnar segir að sú umræða hafi ekki haft áhrif á liðið við undirbúning þess fyrir leikinn.

„Aron meinti ekki það sem hann sagði. Við gerðum grín að honum fyrir þetta en enginn okkar var að stressa sig á þessu," sagði Ragnar.


Tengdar fréttir

Aron Einar í leikbanni gegn Sviss

Landsliðsfyriliðinn Aron Einar Gunnarsson verður í banni þegar að Ísland mætir Sviss í undankeppni HM 2014 á þriðjudagskvöldið.

Umfjöllun: Albanía - Ísland 1-2 | Gylfi skoraði sigurmarkið

Ísland vann sögulegan sigur, 1-2, á Albaníu við fáranlegar aðstæður í Tírana í kvöld. Þetta var fyrsti sigur íslenska liðsins á Balkanskaganum. Gylfi Þór Sigurðsson tryggði Íslandi sigurinn með algjöru gullmarki. Seinka varð seinni hálfleik vegna þrumuveðurs og völlurinn var á floti allan leikinn.

Aron Einar biðst afsökunar

Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson hefur beðist auðmjúklega afsökunar á óviðeigandi ummælum sem hann lét falla um Albana á vefsíðunni fótbolti.net.

Afsökunarbeiðni Arons Einars

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann harmar ummæli sín um albönsku þjóðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×