Fótbolti

Guidetti fékk nýjan samning hjá City

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guidetti í leik með Feyenoord á síðasta tímabili.
Guidetti í leik með Feyenoord á síðasta tímabili. Nordic Photos / Getty Images
Sóknarmaðurinn John Guidetti hefur skrifað undir nýjan þriggja ára samning við Englandsmeistara Manchester City.

Guidetti sló í gegn hjá Feyenoord í hollensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili þar sem hann lék sem lánsmaður frá City. Hann varð markahæsti leikmaður deildarinnar með 20 mörk í 23 leikjum.

Þessi tvítugi Svíi þykir einn efnilegasti sóknarmaður Evrópu en hann hefur þó aðeins komið við sögu í einum mótsleik með Manchester City síðan hann kom til félagsins fyrir fjórum árum síðan.

Hann var sagður á leið frá félaginu en hefur nú bundið enda á vangaveltur um framtíð sína með því að skrifa undir nýjan samning.

„Ég er auðvitað mjög ánægður. Þetta er frábært félag og nýi samningurinn er mjög, mjög góður," sagði Guidetti í viðtali á heimasíðu City.

„Ég hef verið hér í langan tíma en hér varð ég að þeim leikmanni sem ég er í dag. Ég hef séð þetta félag verða að einu stærsta félagi heims og er frábært að fá að vera hluti af því."

Eins og gefur að skilja ríkir mikil samkeppni um stöður í byrjunarliði City en liðið er með marga frábæra sóknarmenn í sínum röðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×