Enski boltinn

Aguero spilar á móti Arsenal um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sergio Aguero.
Sergio Aguero. Mynd/Nordic Photos/Getty
Roberto Mancini, stjóri Manchester City, staðfesti það á blaðamannafundi í dag að argentínski framherjinn Sergio Aguero sé leikfær og verði með á móti Arsenal í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn.

„Sergio er klár í slaginn. Ég vildi setja hann inn á móti Real Madrid en við lentum þá í því að menn voru að meiðast," sagði Roberto Mancini. Sergio Aguero hefur ekkert spilað síðan að hann meiddist eftir 13 mínútur í fyrsta leik tímabilsins á móti Southampton.

Roberto Mancini hefur miklu meiri áhyggjur af vörninni en sókninni og það þótt að liðið verði án Frakkans Samir Nasri. Þessi fyrrum leikmaður Arsenal-liðsins tognaði aftan í læri á móti Real Madrid.

„Við höfum fengið mikið af mörkum á okkur undanfarið og þetta er ekki rétta andlit varnarinnar okkar. Við þurfum að bæta okkur þar," sagði Mancini og hann býst við því að Arsenal blandi sér í titilbaráttuna í vetur.

„Ég tel að Arsenal muni verða í titilbaráttunni í ár. Ég veit ekki hvort þeir séu með betra lið en í fyrra en það er mun minni pressa á liðinu. Þeir hafa vissulega misst nokkra mikilvæga menn en munu samt keppa um titilinn," sagði Mancini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×