Enski boltinn

Mourinho: Terry ekki haldinn kynþáttafordómum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Jose Mourinho, stjóri Real Madrid, segir að John Terry sé ekki haldinn kynþáttafordómum þó svo að sá síðarnefndi hafi verið dæmdur í fjögurra leikja bann fyrir að beita Anton Ferdinand kynþáttaníði.

Mourinho þekkir Terry vel enda störfuðu þeir saman hjá Chelsea á sínum tíma. Mourinho segir það vel mögulegt að Terry hafi látið eitthvað miður fallegt úr sér en sagði að athafnir lýstu ekki alltaf innri manni.

„Hann er ekki kynþáttahatari. Það er 100 prósent klárt. Við vorum með tólf afríska leikmenn á sínum tíma hjá Chelsea. Það var frábær hópur leikmanna og átti Terry gott samband við hvern einasta leikmann í hópnum," sagði Mourinho.

„En það getur allt gerst í fótbolta. Stundum er fótbolti meira en bara leikur og stundum bregst maður við sem gefur ekki rétta mynd af þínum innri manni," bætti hann við.

„En í guðanna bænum ekki segja að hann sé haldinn kynþáttafordómum. Didier Drogba mun staðfesta það og líka Geremi og Claude Makelele. Ég hef sjálfur aldrei komist í kynni við kynþáttafordóma í mínum liðum og ég hef alltaf verð með afríska leikmenn í mínum liðum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×