Enski boltinn

Villas-Boas svarar gagnrýni Harry Redknapp

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andre Villas-Boas, stjóri Tottenham Hotspur, hefur svarað gagnrýni Harry Redknapp, forvera síns í starfinu en fyrir helgi lét Redknapp það frá sér að það rugli bara leikmenn í ríminu að afhenda þeim 70 síðna úttektir á leik liðsins og mótherjanna.

Villas-Boas stýrði Tottenham til sigurs í fyrsta leiknum á tímabilinu í gær þegar liðið fór til Reading og vann sannfærandi 3-1 sigur. Gylfi Þór Sigurðsson var í byrjunarliði Tottenham og átti stóran þátt í fyrsta marki liðsins.

„Stjórar hafa allir mismundandi áherslur og aðferðir til að stýra sínum liðum. Þetta snýst á endanum miklu frekar um leikmennina sjálfa heldur en stjórann," sagði Andre Villas-Boas og hann var ánægður með leik sinna manna um helgina.

„Ég er einstaklega ánægður með frammistöðuna. Leikmennirnir fórnuðu sér allir fyrir liðið, sýndu ábyrgð og héldu fullri einbeitingu. Þeir vissu að við höfum lagt mikið á okkur að undanförnu og að við áttum skilið að fá fyrsta sigurinn í hús," sagði Andre Villas-Boas.

„Þeim tókst líka að losa sig við kvíðann og stressið og spiluðu af sjálfstrausti og einbeitingu sem skilaði sér í því að leikmönnunum tókst að nýta hæfileika sína og hafa gaman að því að spila fótbolta," sagði Villas-Boas.

Það er hægt að sjá svipmyndir úr leik Reading og Tottenham með því að smella hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×