Fótbolti

Sigurður Ragnar: Þetta eru lið sem þekkjast vel

Óskar Ófeigur Jónsson í Osló skrifar
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, segist vera búinn að gera sitt til þess að undirbúa liðið sem best fyrir leikinn mikilvæga á móti Noregi á Ullevaal-leikvanginum í Osló í dag. Íslenska liðinu nægir jafntefli til þess að tryggja sér farseðillinn á Evrópumótið í Svíþjóð næsta sumar.

„Þetta lítur bara vel út en tíminn frá Norður-Íra leikurinn hefur snúist mikið um það að jafna sig enda er stutt á milli leikja. Það eru einhverjir leikmenn í hópnum sem hafa átt í einhverjum meiðslum og sumar hafa verið lasnar. Það er búið að vera kvef og hálsbólga í nokkrum en ekkert stórvægilegt. Við höfum nýtt tímann vel og fundað líka mikið saman svo allar verði klárar í slaginn," sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson sem þekkir vel til norska liðsins.

„Norðmenn eru með gott lið. Við höfum mætt þeim fjórum til fimm sinnum á undanförnum árum, það hafa allt verið jafnir baráttuleikir og þessi verður það líka. Þetta eru lið sem þekkjast vel. Það er mikið undir og þetta er mjög spennandi. Þetta er úrslitaleikur og ég held að alla leikmenn dreymi um að fá að spila slíka leiki," sagði Sigurður Ragnar.

Leikur Noregs og Íslands hefst klukkan 17.30 að íslenskum tíma og verður lýst á Boltavakt Vísis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×