Fótbolti

Besti kvendómari heims dæmir leik Íslands og Noregs í dag

Óskar Ófeigur Jónsson í Osló skrifar
Það verður hart barist á Ullevaal-leikvanginum í Osló í dag þegar íslenska kvennalandsliðið mætir því norska í hreinum úrslitaleik um sæti á Evrópumótinu í Svíþjóð næsta sumar. Íslenska liðinu nægir jafntefli til þess að vinna riðilinn og komast beint inn á EM.

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, gerir sér vel grein fyrir því hvað er mikið undir í þessum leik því leikinn dæmir hin þýska Bibiana Steinhaus sem er að margra mati besti kvendómari heims,

Bibiana Steinhaus hefur sem dæmi dæmt úrslitaleikina á tveimur síðustu stórmótum, sigur Japans á Bandaríkjunum á HM í Þýskalandi 2011 og sigur Bandaríkjanna á Japan í úrslitaleiknum á Ólympíuleikunum í London.

Bibiana hefur margoft komið við sögu íslenska kvennalandsliðsins og var hún til dæmis við stjórnvölinn þegar Ísland og Bandaríkin mættust í úrslitaleik Algarve Cup árið 2011. Hennar fyrsti landsleikur var síðan leikur Íslands og Svíþjóðar árið 2005.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×