Fótbolti

Umfjöllun: Noregur - Ísland 2-1 | Grátlegt tap í Osló

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ísland þarf að fara í umspil til að komast í úrslitakeppni EM í Svíþjóð á næsta ári. Þetta varð ljóst eftir afar svekkjandi tap fyrir Noregi ytra í kvöld.

Norðmenn skoruðu tvö mörk gegn gangi leiksins undir lok fyrri hálfleiks en íslenska liðið hafði verið mun meira með boltann, án þess þó að skapa sér mörg hættuleg færi.

Það sama var upp á teningnum í síðari hálfleik nema að sóknarþunginn jókst enn fremur eftir því sem leið á leikinn. Íslenska liðið uppskar svo mark eftir frábæra sókn sem lauk með draumamarki Margrétar Láru Viðarsdóttur.

En nær komust stelpurnar okkar ekki og því ljóst að þær þurfa að fara í umspil til að komast á EM á næsta ári.

Ísland byrjaði leikinn af krafti og fór strax í sókn á fyrstu sekúndum leiksins. Það gaf tóninn því íslensku leikmennirnir voru mikið með boltann og reyndu ítrekað að finna leið fram hjá norsku vörninni, sem reyndist þrautinni þyngri.

Reyndar átti Ísland ekki almennilegt færi allan fyrri hálfleikinn en Norðmenn svo sem ekki heldur. Það er að segja þar til á 39. mínútu er Bibiana Steinhaus, þýskur dómari leiksins, dæmdi aukaspyrnu á íslenska liðið utarlega á hægri kantinum. Sending kom inn í teig þar sem Marin Mjelde var óvölduð og skallaði boltann í netið af stuttu færi.

Hafi þetta mark verið reiðarslag fyrir íslenska liðið var enn verra í vændum aðeins tveimur mínútum síðar. Norðmenn komust í sókn, sending kom inn í teig frá hægri kantinum og Elise Thorsens afgreiddi knöttinn í markið með föstu skoti.

Íslensku leikmennirnir mættu enn grimmari til leiks í síðari hálfleik enda ekki annað í boði. Stelpurnar voru þó enn í vandræðum með að skapa sér færi en eftir að Margrét Lára braut ísinn á 65. mínútu opnaðist leikurinn nokkuð.

Íslenska markið var stórglæsilegt, bæði undirbúningurinn sem og afgreiðslan. Edda Garðarsdóttir átti þátt í uppspilinu, sem og Katrín Ómarsdóttir sem lagði boltann fyrir Margréti með frábærri hælsendingu. Margrét Lára fékk boltann rétt utan vítateigs og skoraði með hnitmiðuðu skoti.

Tveimur mínútum síðar var Margrét Lára nálægt því að vinna boltann af norska markverðinum eftir fyrirgjöf Fanndísar en eftir það þéttu Norðmenn varnarmúr sinn enn frekar sem gerði íslenska liðinu erfitt fyrir. Stelpurnar fóru að beita háum sendingum sem báru lítinn árangur.

Norðmenn fengu reyndar besta færið eftir íslenska markið þegar að sóknarmaðurinn Herlovsen slapp í gegn eftir mistök í miðjuspili íslenska liðsins. Sú norska setti þó boltann framhjá, ein gegn Þóru markverði.

Varnartaktík norska liðsins gekk upp því leikurinn fjaraði út eftir þetta. Norðmenn fögnuðu vel og innilega en íslensku stelpurnar gengu niðurlútar af velli. Þær fá þó annað tækifæri til að koma sér á EM en þær taka þátt í umspili eftir rúman mánuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×