Fótbolti

Sigurður Ragnar: Vonandi verður þetta bara sama uppskrift og síðast

Óskar Ófeigur Jónsson í Osló skrifar
Mynd/Daníel
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, var alltaf að bíða eftir jöfnunarmarkinu á Ullevaal leikvanginum í kvöld. Það kom hinsvegar aldrei og íslensku stelpurnar þurftu að sætta sig við 1-2 tap fyrir þeim norsku og að þurfa að ná í farseðilinn á EM í gegnum umspilið.

Örlög íslenska liðsins réðust í raun þegar stelpurnar fengu á sig tvö mörk með þriggja mínútna millibili í lok fyrri hálfleiks. „Síðustu fimm mínúturnar í fyrri hálfleik voru ekki góðar og við missum einbeitinguna tvisvar sinnum og er refsað í bæði skiptin. Góð lið gera það," sagði Sigurður Ragnar.

„Við fórum inn í hálfleik og við ræddum um að við þyrftum að spýta í lófana og spila boltanum meira. Það var of mikið af löngum sendingum fram völlinn í fyrri hálfeik. Við ætluðum að sýna karakter í seinni hálfleik og sýna hvað við gætum. Mér fannst liðið bregðast ótrúlega vel við því. Við sýndum þá bæði mikla baráttu og gott spil. Við uppskárum fallegt mark og við hefðum getað skorað fleiri. Ég var alltaf að bíða eftir því að við myndum jafna leikinn," sagði Sigurður Ragnar.

„Það vantaði bara herslumuninn og ég hafði trú á þessu allan tímann. Mér fannst að við værum alltaf að fara að skora á þær annað mark. Ég er stoltur af stelpunum að hafa komið svona sterkar til baka í seinni hálfleiknum. Við þurfum samt að læra af mistökunum sem við gerðum í lok fyrri hálfleiksins," sagði Sigurður Ragnar.

Norska liðið skoraði fyrra markið sitt úr afar ódýrri aukaspyrnu þegar í raun ekkert var í gangi í sóknarleik liðsins.

„Mér fannst þetta ekki vera aukaspyrna en leikmenn verða að passa sig því dómarinn getur séð þetta öðruvísi. Vörnin okkar var aðeins of hátt upp á vellinum á þessum tíma og við hefðum kannski getað verið aðeins aftar. Það er samt alltaf hægt að vera vitur eftir á. Mér fannst við ráða vel við þær í opnum leik allan leikinn en það voru tvö atvik sem gerðu út um leikinn í dag," sagði Sigurður Ragnar.

Framundan eru leikir í umspili en Sigurður Ragnar var ekki alveg viss um hvað biði liðsins þar enda fór allur tími hans og öll einbeiting í undirbúning liðsins fyrir Noregsleikinn.

„Mig grunar að við gætum fengið Austurríki, Úkraínu eða Skotland. Það á eftir að koma í ljós og ég held að það sé dregið mjög fljótlega. Við þurfum bara að klára það. Liðunum sem fara í umspilið er raðað niður eftir styrkleika og ég geri ráð fyrir að Ísland sé ein af þessum þremur þjóðum sem eru taldar vera sterkari. Þá fáum við útileikinn fyrst og svo heimaleik," sagði Sigurður Ragnar en svo var upp á teningnum þegar Ísland komst á EM fyrir fjórum árum eftir sigur í umspilsleikjum við Íra.

„Vonandi verður þetta bara sama uppskrift og síðast," sagði Sigurður Ragnar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×