Enski boltinn

Di Canio tók markvörðinn af velli eftir 20 mínútur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Paolo Di Canio, stjóri enska C-deildarliðsins Swindon, vakti mikla athygli um helgina fyrir að taka markvörð sinn af velli snemma leiks gegn Preston og ekki síður þau ummæli sem hann lét falla eftir leikinn.

Swindon lenti snemma 2-0 undir í leiknum og brást Di Canio við með því að taka hinn tvítuga Wes Foderingham af velli eftir 21 mínútu.

Foderingham brást illa við og sparkaði í vatnsbrúsa þegar hann labbaði eftir hliðarlínunni á leið inn í búningsklefann.

„Ég hef ekki séð svona hegðun hjá atvinnumanni áður. Mér var algjörlega frjálst að taka hann af velli. Hann var versti leikmaður okkar gegn Stoke í vikunni en við unnum þann leik," sagði Di Canio og átti þar við frækinn sigur Swindon í enska deildabikarnum.

„Það geta allir leikmenn gert mistök en þarna sáum við hversu hrokafullur og fáfróður hann er. Hann verður að biðja alla afsökunar og það verður að koma frá hjartanu. Annars spilar hann ekki meira í mínu liði."

Di Canio sagði að það væri mikilvægt að setja málið í rétt samhengi. „Þetta er tvítugur markvörður sem spilaði ekki eina mínútu í atvinnumannaliði áður en hann kom til okkar í fyrra. Við erum að tala um markvörð í League One (ensuk C-deildinni) og hann lætur svona."

Þess má þó geta að fyrir viku síðan fagnaði Foderingham þeim áfanga að hafa haldið marki Swindon hreinu á heimavelli í 1000 mínútur. Hann fékk síðast á sig mark á County Ground í febrúar á þessu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×