Enski boltinn

Javi García: Manchester City er stærsta félagið í Englandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Javi Garcia.
Javi Garcia. Mynd/Nordic Photos/Getty
Javi Garcia er nýjasti leikmaðurinn hjá Manchester City en ensku meistararnir keyptu hann frá Benfica á lokadegi félagsskiptagluggans fyrir 15,8 milljónir punda. Garcia var ekki löglegur fyrir leikinn á móti QPR um síðustu helgi og fær því góðan tíma í landsleikjahléinu til að kynnast öllu hjá City fyrir fyrsta leik sinn með liðinu.

„Ég er feginn að þetta kláraðist allt í tíma en síðustu dagarnir voru lengi að líða," sagði Javi Garcia í viðtali á heimasíðu Manchester City en hann er 25 ára varnartengiliður sem var búinn að vera hjá Benfica-liðinu frá 2009.

„Ég er kominn til stærsta félagsins í Englandi og þetta er jafnframt eitt af þeim stærstu í Evrópu. Liðið er fullt af toppleikmönnum og ég þarf að leggja mikið á mig til þess að komast í liðið. Það er mun erfiðara að komast í byrjunarliðið hér en hjá öðrum félögum. Ég þurfti samt ekki að hugsa mig tvisvar um þegar umboðsmaðurinn nefndi þetta fyrst við mig," sagði Javi Garcia.

„Ég þekki David [Silva] því við höfum verið saman í landsliðinu. Hann verður sá sem mun hjálpa mér mest þar sem við höfum þekkst síðan að við vorum 17 ára krakkar," sagði Javi Garcia.

„Ég mun nota David sem leiðsögumann um borgina. Ég ætla líka að reyna að læra enskuna sem fyrst til þess að aðlagst betur," sagði Javi Garcia en hann kemur í gegnum unglingastarf Real Madrid. Javi Garcia fékk fá tækifæri hjá Real og yfirgaf Madrid fyrir þremur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×