Enski boltinn

Tevez: Ég hafði gott af deilunum við Mancini

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Tevez og Roberto Mancini.
Carlos Tevez og Roberto Mancini. Mynd/Nordic Photos/Getty
Carlos Tevez telur að deilur hans við stjórann Roberto Mancini á síðasta tímabili komi til með að hjálpa honum á þessu tímabili. Tevez er búinn að skora 3 mörk og leggja upp önnur þrjú í fyrstu þremur umferðum ensku úrvalsdeildarinnar.

Tevez og Mancini eru orðnir góðir félagar á ný og Tevez blómstrar inn á vellinum enda hefur hann skorað í öllum þremur deildarleikjum City sem og í leiknum um Samfélagsskjöldinn rétt fyrir mót.

Argentínumaðurinn spilaði ekki í sex mánuði á síðasta tímabili eftir að Mancini ásakaði hann um að hafa neitað að koma inn á í leik á móti Bayern München í Meistaradeildinni.

Tevez baðst á endanum afsökunar eftir margra mánaða útlegð, snéri aftur í liðið og átti stóran þátt í að Manchester City varð meistari í vor.

„Ég hafði gott af deilunum við Mancini. Nú nýt ég þess aftur að spila fótbolta sem var það sem ég sóttist helst eftir. Ég er ánægður og tilbúinn að vinna titla með City," sagði Carlos Tevez við blaðamenn í Argentínu en hann nú kominn heim til Argentínu til að eyða tíma með fjölskyldunni.

„Ég náði mínu besta undirbúningstímabili í mörg ár. Ég lagði mikið á mig og nú líður mér vel inn á vellinum. Ég er léttur á fæti, sterkur og fljótur," sagði Tevez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×