Enski boltinn

Bolt spilar mögulega með United gegn Real Madrid

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ef til vill mun Bolt leggja upp mark fyrir Van Persie gegn Real Madrid.
Ef til vill mun Bolt leggja upp mark fyrir Van Persie gegn Real Madrid. Nordic Photos / Getty Images
Sir Alex Ferguson segir það vel mögulegt að spretthlauparinn Usain Bolt muni spila í góðgerðarleik með Manchester United gegn Real Madrid á næsta ári.

Bolt hefur margsinnis lýst því yfir að hann þrái að fá tækifæri hjá United og að hann telji sig hafa ýmislegt fram að færa. Bolt telur að hann myndi nýtast best á kantinum enda hraðinn sjálfsagt hans langstærsti kostur.

Bolt var gestur á leik United gegn Fulham fyrr á tímabilinu og þá ræddust þeir Ferguson við.

„Usain er stór karakter og mikill stuðningsmaður United. Það vakti athygli mína þegar hann stakk upp á því að hann gæti spilað með liðinu í góðgerðarleik," sagði Ferguson við Inside United-tímaritið.

„Við spilum við Real Madrid á næsta ári og þá fáum við kannski tækifæri til að láta hann spila og sjá hvað hann getur."

Bolt hefur æft með aðalliði United og hefur meira að segja sagt að hann væri reiðubúinn að hætta í frjálsum íþróttum fyrir samning hjá United.

Góðgerðarleikur United og Real fer fram þann 3. júní á Old Trafford.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×