Enski boltinn

Tevez: Deilan við Mancini reyndist blessun

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Carlos Tevez segir að sé líði vel og í fyrsta sinn í langan tíma hafi hann löngun til að spila vel fyrir félag sitt og vinna titla.

Tevez spilaði ekki með City í um hálft ár á síðasta tímabili eftir að hann neitaði að koma inn á sem varmaður í leik með liðinu í Meistaradeild Evrópu.

Roberto Mancini, stjóri City, sagði eftir leik að Tevez væri búinn að vera hjá félaginu en á endanum tókust sættir með þeim og Tevez kom aftur inn í liðið undir lok tímabilins.

„Deilan við Roberto reyndist af hinu góða því ég er nú hungraður í árangur með félaginu á ný. Ég er einbeittur að því að standa mig vel með City í ensku úrvalsdeildinni og Meistaradeild Evrópu," sagði Tevez við enska fjölmiðla.

„Áður var tilgangurinn með því að spila að vekja athygli landsliðsþjálfarans. En nú nýt ég þess að spila vegna þess að ég vil ná árangri."

„Landsliðið er ekki lengur í forgangi hjá mér. Ég átti gott undirbúningstímabil í fyrsta sinn í 4-5 ár og mér líður vel."

Tevez var ekki valinn í landslið Argentínu sem mætir Paragvæ og Perú í undankeppni HM á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×