Fótbolti

Magnað mark markvarðar - tók hann á kassann og lét vaða af 70 metra færi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dominique Niederhauser, markvörður svissneska áhugamannaliðsins Dardania Lausanne, skoraði magnað mark um síðustu helgi og upptakan af því hefur slegið í gegnum á Youtube-vefnum.

Dardania Lausanne liðið var þarna að spila við Genolier-Begnins og vann leikinn sannfærandi 6-1. Mark Niederhauser stal þó senunni og eru menn strax farnir að kalla þetta flottasta mark sem markvörður hefur skorað í fótboltaleik.

Dominique Niederhauser var kominn langt út úr teignum enda lítið að gera því liðsfélagar hans voru með öll tök á leiknum. Niederhauser fékk háan bolta til baka, tók hann á kassann og lét bara vaða af meira en 70 metra færi.

Boltinn sveif alla leið og þrátt fyrir að markvörður mótherjanna væri ekkert svakalega illa staðsettur þá réð hann ekki við þetta magnaða skot sem datt niður rétt fyrir framan þverslánna og söng í netinu.

Dominique Niederhauser fagnaði markinu með stæl og ekki voru liðsfélagarnir heldur ósáttir við hann. Það er hægt að sjá upptökuna af þessu með því að smella hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×