Fótbolti

Forseti Sounders: Eiður hafði samband við okkur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári á landsliðsæfingu í sumar.
Eiður Smári á landsliðsæfingu í sumar. Mynd/Anton
Eiður Smári Guðjohnsen tók þátt í sinni fyrstu æfingu með Seattle Sounders vestanhafs í gær. Þjálfari liðsins var ánægður með það sem hann sá á æfingunni.

Eiður Smári er án félags eftir að hann fékk sig lausan undan samningi sínum við gríska liðið AEK Aþenu í sumar. Forseti Seattle Sounders, Adrian Hanauer, segir að fulltrúar Eiðs hefðu svo sett sig í samband við félagið.

„Þetta kom í raun upp úr þurru. Fulltrúar hans höfðu samband og maður fúlsar ekki við tækifæri að skoða jafn hæfileikaríkan leikmann eins og Eið Smára, sem á frábæra ferilsskrá," sagði hann.

„Við fengum tækifæri til að skoða hann á æfingunni og við höfum nú næstu viku til að meta ástandið. Við munum svo sjá til hvað gerist," bætti hann við. „En það er alveg ljóst að við fengum hann ekki með það fyrir augum að kaupa hann fyrir næsta tímabil. Það er mögulegt að við gerum eitthvað fyrir þetta tímabil."

Þjálfari liðsins, Sigi Schmid, var ánægður með frammistöðu Eiðs Smára. „Það sjá allir að hann er góður leikmaður. Þetta var bara fyrsti dagurinn og það er erfitt að æfa strax eftir langt ferðalag."

Seattle Sounders er nú í þrijða sæti Vesturdeildarinnar í MLS-deildinni í Bandaríkjunum. Liðið er með 44 stig eftir 26 leiki og er níu stigum á eftir toppliði San Jose Earthquakes. Tímabilinu lýkur í október og tekur þá við úrslitakeppnin sem stendur yfir í nokkrar vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×