Enski boltinn

Del Piero hafnaði Liverpool vegna Heysel-harmleiksins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fyrirliðar Juventus og Livepool fyrir leikinn á Heysel 1985.
Fyrirliðar Juventus og Livepool fyrir leikinn á Heysel 1985. Mynd/Nordic Photos/Getty
Alessandro Del Piero gerði í gær samning við ástralska félagið Sydney FC en áður en þessi Juventus-goðsögn ákvað að skella sér hinum megin á hnöttinn til þess að spila fótbolta reyndi Brendan Rodgers, stjóri Liverpool, að fá hann á Anfield.

Claudio Pasqualin, fyrrum umboðsmaður Del Piero, heldur því fram að Alessandro Del Piero hafi ekki viljað fara til Liverpool vegna Heysel-harmleiksins. 39 stuðningsmenn Juve létust þegar veggur hrundi á þá undan þunga Liverpool-stuðningsmanna í aðdraganda úrslitaleiks Juventus og Liverpool í Evrópukeppni meistaraliða 1985.

„Ég tel að sem sannur Juventino varð hann að segja nei við Liverpool útaf virðingu sinni fyrir og minningu um þá sem létust í harmleiknum á Heysel-leikvanginum," sagði Claudio Pasqualin. Pasqualin er líka sannfærður um að hinn 37 ára gamli Del Piero hafi tekið góða ákvörðun með að fara til Ástralíu.

„Sydney er frábært tækifæri fyrir hann. Alessandro getur hjálpað til að kynna ástralskan fótbolta fyrir heiminum og ég er viss um að hann verði ánægður þarna. Þegar hann snýr aftur til Ítalíu þá getur hann gert allt sem honum langar til," sagði Pasqualin.

Liverpool sem og önnur ensk félög voru sett í bann frá Evrópukeppnum í fimm ár eftir atburðina á Heysel-leikvanginum 29. maí 1985 og samskipti enskra og ítalskra stuðningsmanna hafa alltaf verið erfið síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×