Fótbolti

Alfreð Finnboga: Nýtti reiðina á jákvæðan hátt

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Alfreð er hér nýbúinn að skora seinna mark Íslands í kvöld.
Alfreð er hér nýbúinn að skora seinna mark Íslands í kvöld. mynd/vilhelm
„Ég var harðákveðinn í að nýta þessar mínútur sem ég fékk og mér fannst ég gera það," sagði Alfreð Finnbogason sem kom af bekknum og tryggði Íslandi 2-0 sigur á Noregi með snyrtilegu marki.

„Maður getur nýtt reiðina á margan hátt og mér fannst ég gera það á jákvæðan hátt," sagði Alfreð aðspurður hvort hann hefði verið reiður að litið var framhjá honum við valið á byrjunarliðinu.

„Maður sá í vikunni hvernig þetta yrði. Að sjálfsögðu var ég brjálaður enda vill maður alltaf byrja hvort það sé hjá landsliði eða félagsliði. Þannig á þetta að vera og allir sem voru á bekknum eiga að vera brjálaðir á að vera ekki í fyrstu ellefu. En ég nýtti það á jákvæðan hátt," sagði Alfreð.

Mark hans var einkar snyrtilegt. Frábærlega tímasett stungusending frá Gylfa gaf Alfreð heilmikinn tíma gegn markverði Norðmanna. Alfreð hélt ró sinni og renndi boltanum af öryggi í markið.

„Þegar hlutirnir eru að ganga með þér þá ganga þeir með þér. Ég tók ákvörðun snemma að horfa á markvörðinn, fylgdist með hvar hann var staðsettur og náði að senda boltann framhjá fótunum á honum. Þeir vilja ekki fá hann þar," sagði Alfreð sem hefur verið iðinn við kolann undanfarna mánuði með félagsliðum sínum

Alfreð gerði tilkall til vítaspyrnu skömmu síðar þegar hann fór fallega með boltann í vítateig Norðmanna og féll.

„Hann kom inn í síðuna á mér og átti að vera víti samkvæmt mínum bókum," sagði Alfreð sem var nokkuð ánægður með leik liðsins.

„Mér fannst við agaðir í okkar aðgerðum. Við vorum kannski ekki að skapa mikið en þeir ekki heldur. Við áttum tvö stangarskot og ef eitthvað var vorum við líklegri. Markið (innsk: hjá Kára) kom á góðum tíma fyrir okkur," sagði Alfreð.

„Seinna markið drap líka leikinn. Þeir voru að henda öllum fram, komnir með tvo framherja svo markið gaf okkur andrými," sagði Alfreð sem er ákveðinn varðandi markmið Íslands.

„Við sýndum að við ætlum okkur mikið í þessari keppni. Við viljum ekki bara vera með lengur. Við höfum spilað gegn þeim fjórum sinnum í síðustu keppnum og alltaf fundist við eiga eitthvað skilið. Leikurinn snýst um að fá úrslit. Við viljum breyta okkur úr liði sem á góða kafla í lið sem nær í góð úrslit," sagði Alfreð.

Landsliðsmenn Íslands hafa oftar en einu sinni gengið í þá gildru að fagna góðum sigri fullgeyst. Stundum í miðbæ Reykjavíkur. Alfreð hefur engar áhyggjur af að slíkt hendi í kvöld.

„Menn eru einbeittir. Við leggjum af stað sex í fyrramálið. Ég vona að þjóðin taki út gleðina fyrir okkur," sagði Alfreð léttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×