Innlent

Segja miklu minna magn hafa lekið í sjóinn

Karen Kjartansdóttir skrifar
Goðafoss við strendur Noregs.
Goðafoss við strendur Noregs. mynd/ afp.
Forsvarsmenn Eimskipafélags Íslands telja að miklu minna magn olíu hafi runnið úr Goðafossi í Óslóarfirði en norsk yfirvöld halda fram og hafa fengið sjálfstæðan rannsóknaraðila til að fara yfir málin.

Stofnun hafs- og stranda í Noregi, eða Kystverket eins og stofnunin heitir þar í landi, fer fram á að Eimskip greiði hátt í tvo milljarða króna í skaðabætur vegna strands Goðafoss í Óslóarfirði í febrúar árið 2011. Talsmaður strandgæslunnar, Johan Marius Ly, segir í viðtali við Aftenposten í gær að krafist verði skaðabóta vegna hreinsunarstarfs eftir að Goðafoss strandaði, en talið er að meira en 100 tonn hafi lekið í hafið í firðinum.

Ólafur William Hand upplýsingafulltrúi Eimskips, er ósáttur við að heyra af slíku í norskum fjölmiðlun. „Að sjálfsögðu hefðu menn átt að setja sig í samband við okkur áður en þeir fara með svona í fjölmiðla. Annað er bara mjög óeðlilegt," segir hann.

Hann segir að þessi krafa muni þó ekki hafa áhrif á daglegan rekstur fyrirtækisins þar sem það sé vel tryggt.

Í Aftenposten segir einnig að það vegi þungt að skiptstjórinn á Goðafossi beri mikla ábyrgð á strandinu. Hann hafi verið einn í brúnni þegar skipið strandaði, hann hafi ekki vitað nákvæmlega hvar skipið var auk þess sem farmur á þilfarinu hafi byrgt honum sýn.

Ólafur segir að skipstjórinn njóti fulls traust hjá fyrirtækinu, ekki sé hægt að skella skuldinni á einn mann þegar svona stórslys verða. Minnir hann á að norski lóðsinn fór fyrr frá broði en gert er ráð fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×