Enski boltinn

Tilboð City í Scott Sinclair samþykkt

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Scott Sinclair
Scott Sinclair Nordicphotos/Getty
Swansea hefur samþykkt tilboð Manchester City í kantmanninn Scott Sinclair. BBC útvarpið í Wales greinir frá þessu.

Sinclair var ekki í leikmannahópi Swansea sem lagði West Ham 3-0 á laugardaginn. Hann hafði neitað að framlengja samning sinn við velska liðið en brottför hans frá liðinu hefur verið yfirvofandi í nokkrar vikur.

„Ég ræddi við Scott og við ákváðum að það væri best að hann yrði utan hópsins í dag (á laugardag) og svo sæjum við til hvað myndi gerast í vikunni," sagði Michael Laudrup knattspyrnustjóri Swansea um helgina.

Sinclair verður annar leikmaðurinn sem gengur til liðs við City í sumar. Áður hafði Jack Rodwell komið til liðsins frá Everton á 12 milljónir punda.

Sinclair mun fylla í skarð kantmannsins Adam Johnson sem gekk í raðir Sunderland á föstudag. Spiltími Johnson var af skornum skammti á síðustu leiktíð og fróðlegt verður að sjá hvaða hlutverk Roberto Mancini, stjóri City, hafi hugsað fyrir Sinclair.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×