Innlent

Akureyringar þurfa að spara vatnið

Magnús Halldórsson skrifar
Akureyringar glíma nú við vatnsskort, mitt í veðurblíðu. Forstjóri Norðurorku segir að íbúar hafi tekið tilmælum fyrirtækisins vel um að fara sparlega með vatn, en sér fram á að staðan batni strax um helgina.

Forsvarsmenn Norðurorku beindu þeim tilmælum til viðskiptavina sinna í gær, þ.e. íbúum á Akureyri og nágrenni, að fara sparlega með vatn þar sem hratt gekk á vatnsbyrðir sökum mikilla þurrka og notkunar.

Helgi Jóhannesson, forstjóri Norðurorku, segir að ekkert annað hafa komið til greina en að hvetja íbúa til þess að nota kalda vatnið ekki að óþörfu, og íbúar hafi tekið þessum tilmælum vel.

„Við náttúrlega fylgjumst með notkuninni alla daga, bæði öflun og notkun. Við höfum tekið eftir því að vatnsbólin hafa gefið eftir lítillega, sem er ekki óeðlilegt í svona tíð. Aftur á móti hefur notkunin aukist mjög mikið, sem fer eflaust saman við þurrka, fólk er að vökva mjög mikið," segir hann.

Helgi segir að tölur á mælum Norðurorku hafi sýnt ískyggilega þróun á fimmtudaginn, í mikilli veðurblíðu.

„Í gær þá keyrði um þverbak í notkuninni. Hún var orðin 50-60% meiri en við erum vanir að sjá. Svo með allar dælur á fullu áttum við erfitt með að halda lágmörkum í tönkum hjá okkur," segir hann.

Helgi segir það vera vissan létti, að nú sé rigning í kortunum eftir helgi, þó margir íbúa á Norðurlandi hafi vafalítið viljað hafa sólina hátt á lofti sem lengst.

„Við höfum nú beðið fólk að fara sparlega með vatnið áfram en við erum að sjá rigningu í kortunum í næstu viku. Þannig að ég á von á því að við getum slakað á þessu strax eftir helgina. Eða ég vona það. Það lítur alla vega vel út í dag," segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×