Innlent

Jón eða séra Jón skiptir ekki máli heldur lög um samkeppni

Erla Hlynsdóttir skrifar
Séra Axel Árnason. Myndin er af vef dfs.is.
Séra Axel Árnason. Myndin er af vef dfs.is. Mynd / MHH
Séra Axel Árnason Njarðvík, héraðsprestur í Suðurprófastsdæmi, hefur farið fram á minnst 20 milljóna króna bætur frá Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Axel rekur fjarskipta- og netfyrirtækið Ábótann, ásamt bróður sínum, og hefur það lagt byggt upp fjarskiptakerfi til að veita netþjónustu, meðal annars í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Þannig hefur fyrirtækið fjárfest í ADSL-stöðvum, ljósleiðara og örbylgjubúnaði. Nú er hins vegar í bígerð að sveitarfélagið ætli að leggja eigin ljósleiðara um alla sveitina. Axel telur þessar framkvæmdir sveitarfélagsins skaða rekstur Ábótans á samkeppnismarkaði.

Bótakrafa Axels var rædd á fundi sveitarstjórnar í gærkvöldi, að því er fram kemur í Fréttablaði Suðurlands í dag.

„Það er reyndar athyglisvert í fréttum hér á Suðurlandi að presturinn sjálfur er dreginn inn í þetta. Það skiptir ekki máli hvort það er Jón eða séra Jón, heldur reynir hér á þau lög og þær reglur sem gilda í landinu um samkeppnismarkað," segir Axel.

Axel telur ljósleiðaravæðingu sveitafélagsins, á kostnað ríkis og, vera óeðlilegt inngrip á markað sem hefði skaðleg áhrif á rekstur Ábótans.

„Þetta er almannafé sem sveitarfélagið er að nota, og það er alltaf sagt að sveitarfélagið standi á bak við þetta, en Landsvirkjum greiðir stóran hluta af þessum kostnaði sem til fellur vegna lagningar ljósleiðarans," segir Axel.

Ábótinn hefur starfað í tíu ár og lagt út í miklar fjárfestingar til að veita netþjónustu.

„Með þessu útspili sveitarfélagsins þá er þessari fjárfestingu stefnt í uppnám. Það eina sem Ábótinn er að gera er að óska þess við sveitarfélagið að ganga til viðræðna um þann skaða sem Ábótinn verður fyrir," segir Axel.

Fréttablað Suðurlands greinir frá því að oddvitinn Gunnar Örn Marteinsson lagði til á fundinum í gær að kallað yrði eftir áliti lögmanns sveitarfélagsins og var það samþykkt samhljóða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×