Innlent

Menntunarleysi ýtir undir sóun á mat

BBI skrifar
Mynd/Halldór Sveinbjörnsson

Ólína Þorvarðardóttir, varaformaður umhverfisnefndar Alþingis, segir að matarmenningu Íslendinga hafi farið aftur. Það endurspeglist meðal annars í sóun á mat. Hún telur að vinna megi gegn þeirri þróun með því að auka vægi hússtjórnar og heimilishalds í skólum.

Í frétt á RÚV í dag voru reifaðar niðurstöður nýlegrar rannsóknar um sóun og frákast matar á Norðurlöndunum. Þar voru veitingahús og mötuneyti á Norðurlöndunum sögð fleygja miklu magni matar og Íslendingar sagðir enn verri en nágrannar sínir á Norðurlöndunum.

Ólína telur að sóun almennings á mat sé í jafnmiklum ólestri og sóun mötuneyta og veitingastaða. Hún segir að eftir að heimilisfræði og hússtjórn varð minni þáttur í menntun ungmenna þá hafi þjóðin smám saman misst virðingu fyrir matvælum. „Verri meðferð matvæla og sóun hangir saman við þekkingarskort," segir hún og telur þau umhverfisspjöll sem felast í sóun matvæla vera áhyggjuefni.

Ólína bendir einnig á að magnpakkningar í stórverslunum og breyttir neysluhættir fólks ýti undir frákast og virðingarleysi fyrir mat.

„Þú sérð líka að þjóðin er að fitna. Það er partur af þessu," segir Ólína og telur að með því að gefa heimilisfræði og hússtjórn meira vægi í námi barna megi vinna gegn þessari þróun. „Einmitt núna þegar bæði kyn eru þátttakendur á almennum vinnumarkaði er kannski meiri ástæða til að fara að gefa þessum hluta almennrar fræðslu gaum," segir hún.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.