Innlent

Fatimusjóðurinn lagði fram fimm milljónir í styrk til Sýrlendinga

Guðlaug Pétursdóttir, Jóhanna Kristjónsdóttir og Rannveig Guðmundsdóttir í stjórn Fatimusjóðsins ásamt Kristjáni Sturlusyni, framkvæmdastjóra Rauða krossins og Þóri Guðmundssyni, sviðsstjóra hjálparstarfssviðs við afhendingu styrksins.
Guðlaug Pétursdóttir, Jóhanna Kristjónsdóttir og Rannveig Guðmundsdóttir í stjórn Fatimusjóðsins ásamt Kristjáni Sturlusyni, framkvæmdastjóra Rauða krossins og Þóri Guðmundssyni, sviðsstjóra hjálparstarfssviðs við afhendingu styrksins.
Fatimusjóðurinn hefur lagt fram fimm milljónir króna til aðstoðar fórnarlömbum átakanna í Sýrlandi. Rauði krossinn á Íslandi veitti styrknum viðtöku í dag og munu Alþjóða Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn í Sýrlandi nýta féð til að aðstoða óbreytta borgara sem orðið hafa illa úti vegna átakanna þar í landi.

„Þetta eru mest framlög frá einstaklingum hér á Íslandi sem vilja hjálpa venjulegu fólki sem er skyndilega lent í miðri styrjöld og hefur þurft að flýja heimili sín. Ég bjó í Sýrlandi í tæpa þrjá vetur og hef komið þangað ótal sinnum að auki, bæði ein á ferð og með hópa frá Íslandi." segir Jóhanna Kristjónsdóttir, stofnandi og forsvarsmaður sjóðsins, í tilkynningu. „Mér er því sérlega umhugað um að við gerum eitthvað til að hjálpa Sýrlendingum á þessum erfiðu tímum."

Neyðarástand ríkir í Sýrlandi. Vopnuð átök hafa verið viðvarandi um margra mánaða skeið í borgunum Aleppo, Homs og hluta Damaskus. Þúsundir manna hafa þurft að flýja heimili sín og halda nú til í fjöldahjálparstöðvum í Sýrlandi eða flóttamannabúðum erlendis. Þessi hópur treystir alfarið á mannúðaraðstoð Rauða krossins sem víða í landinu er eini aðilinn sem getur séð þolendum átakanna fyrir brýnustu nauðsynjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×