Innlent

Búast við kæruflóði í Mýrarboltanum

Frá Mýrarboltanum á Ísafirði.
Frá Mýrarboltanum á Ísafirði.
Evrópumeistaramótið í Mýrarbolta fer fram á Ísafirði um helgina. Jón Páll Hreinsson, mýrarfláki (hvorki drullusokkur né skíthæll) var gestur í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis í dag. Hann ræddi þar við þáttastjórnendur um mótið og þá athyglisverðu kæruhefð sem myndast hefur í kringum það.

„Það er svo skemmtilegt í Mýrarboltanum að menn eru afar kæruglaðir," segir Jón. „Í fyrra vorum við með 50 lið en alls bárust 200 kærur. Núna eru rúmlega 100 lið og við erum nú að undirbúa okkur fyrir mikið kæruflóð. Ætli við þurfum ekki að koma á dómsstigum svo að hægt verði að fjalla um öll kærumál."

Eitt þeirra liða sem nú þegar hefur lagt fram kæru er Djöfull er ég fullur. Þeir halda því fram að nokkrir liðsmenn Bleiku Dalahrútanna séu atvinnumenn í skítkasti. Þá beinast augu manna að Ásmundi Einari Daðasyni, þingmanni og dalahrúti.

„Nú verður hver að dæma fyrir sig," segir Jón og spyr: „Eru þingmenn á hinu háttvirta Alþingi atvinnumenn í skítkasti?"

Jón segir að margar skemmtilegar hefðir hafi myndast í kringum mýrarboltann. Þó svo að um evrópumeistaramót sé ræða þá bítast liðin einna helst um sigra í búningakeppninni. Jón segir liðin hafa lagst í mikla undirbúningsvinnu fyrir mótið.

„Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að fólk sækir mótið. Þetta er skemmtilegt.Orðsporið er að dreifast og það er gaman að sjá hversu stórt þetta er orðið.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Jón í heild sinni hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×