Innlent

Verjendur Annþórs og Barkar kæra til Hæstaréttar

Jón Hákon Halldórsson skrifar

Verjendur Annþórs Kristjáns Karlssonar og Barkar Birgissonar munu kæra úrskurð Héraðsdóms Suðurlands, um að vitni fái að gefa skýrslu nafnlaust í máli gegn þeim, til Hæstaréttar. Annþór og Börkur eru grunaðir um að hafa orðið Sigurði Hólm Sigurðssyni, samfanga sínum, að bana á Litla Hrauni í vor. Þeir hafa að auki verið sökuð um fjölmörg alvarleg ofbeldisbrot, framin á liðnu ári á höfuðborgarsvæðinu.



Héraðsdómur Suðurlands úrskurðaði í morgun að vitni í málinu gegn þeim gæti komið fram nafnlaust. Hólmgeir Elías Flosason, verjandi Annþórs, sagði í samtali við Vísi nú á fjórða tímanum, að niðurstaðan yrði kærð til Hæstaréttar. Hann sagðist þekkja eitt dæmi um að héraðsdómur hefði komist að sömu niðurstöðu og Héraðsdómur Suðurlands hefði komist að í dag. Í því tilfelli hefði Hæstiréttur snúið niðurstöðu héraðsdóms við.



Fram kom í fréttum RÚV í dag að dómari við Héraðsdóm Suðurlands hefði hafnað kröfu þeirra Annþórs og Barkar um að handjárn yrðu tekin af þeim inni í réttarsal. Verjandi Annþórs staðfesti þá frásögn í samtali við Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×