Innlent

"Skiltaskjálfta ber að sefa"

Jakob Frímann Magnússon, framkvæmdastjóri Miðborgarinnar okkar.
Jakob Frímann Magnússon, framkvæmdastjóri Miðborgarinnar okkar.
„Þetta kemur mér á óvart," segir Jakob Frímann Magnússon, framkvæmdastjóri Miðborgarinnar okkar, aðspurður um ákvörðun byggingafulltrúa um að fjarlægja auglýsingaskilti sem sólarhringsfyrirvara í miðborginni.

„Ég er jafn hissa og allir aðrir," segir Jakob. „Það má vel færa rök fyrir því að það þurfi að hafa betra eftirlit með skiltavæðingunni - mögulega hefur hún gengið of langt á ákveðnum svæðum."

Jakob segist hafa staðið í þeirri trú að samkomulag hafi verið í gildi áratugum saman um auglýsingaskiltin en það gerði ráð fyrir að verslunareigendur mættu staðsetja skiltin meter út á gangstétt frá versluninni. Ákvörðun byggingafulltrúa um að skipa rekstraraðilum að fjarlægja skiltin hafi komið honum á óvart sem og þeim hagsmunaaðilum sem hann hefur rætt við í dag. Þörf sé á lýðræðislegri umræðu um málið.

Jakob tekur undir með verslunareigendum sem lýst hafa óánægju sinni með þann stutta fyrirvara sem byggingafulltrúi gaf. „Það á líklega eftir að koma skýring á því af hverju tilkynningin kemur svo skyndilega. Það þarf að gefa mönnum svigrúm."

Þá segir Jakob að hagsmunaaðilar í miðborginni og yfirvöld í Reykjavík þurfi að leysa málið í sameiningu. Hann tekur þó fram á að eðlilegt samráð og skoðanaskipti hafi átt sér stað um ýmis brýn miðborgarmál á undanförnum mánuðum og misserum þó áherslumunur sé um ýmis atriði eins og gengur. Þetta mál hafi hins vegar farið fram hjá öllum hefðbundnum samráðsleiðum. Og standi það vonandi til bóta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×