Innlent

Júlíus Vífill er hræddur um verslunina á Laugarveginum

Höskuldur Kári Schram skrifar
Borgarfulltrúi sjálfstæðismanna óttast að hækkun bílastæðagjalds í Reykjavík muni hafa neikvæð áhrif á þróun verslunar í miðborginni. Hann gagnrýnir meirihlutann fyrir samráðsleysi.

Bílastæðagjöld í miðborginni hækka um fimmtíu prósent um næstu mánaðamót og þá lengist gjaldskylda á laugardögum. Samtök kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveginn hafa mótmælt þessum hækkunum og óttast að þetta muni fæla viðskiptavini frá miðborginni.

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi sjálfstæðismanna, tekur undir þessar áhyggjur.

„Borgaryfirvöld, meirihluti borgarstjórnar, verður auðvitað að sýna hófsemd í hækkun einhliða gjaldskráa borgarinnar. 50% hækkun stöðumælagjalda er ekki hófleg," segir hann.

Júlíus gagnrýnir að ekki hafi verið haft samráð við kaupmenn áður en þessi ákvörðun var tekin. Hann segir þetta muni hafa neikvæða áhrif á þróun verslunar í miðborginni

„Ég held að við verðum að horfa til þess hvernig verslun er að þróast á Laugarveginum. Við sjáum víða tómt verslunarhúsnæði. Og það sýnir okkur bara að það verður að stíga varlega til jarðar," segir Júlíus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×