Innlent

Skýrt og einbeitt markmið að sigra nektarhlaupið

BBI skrifar
Pétur Geir Grétarsson, strípalingur með meiru.
Pétur Geir Grétarsson, strípalingur með meiru. mynd/Af vef Politiken
Pétur Geir Grétarsson fór á Hróarskeldu með það skýra og einbeitta markmið að sigra nektarhlaupið. Sem hann og gerði með miklum sóma. Hann sigraði með tíu metra forskoti, sem verður að teljast nokkuð gott.

„Þetta er mjög góður árangur," segir hann aðspurður en hlaupið er stærra en margir Íslendingar gera sér grein fyrir. Aðeins tuttugu manns fá að taka þátt í sjálfu hlaupinu, 10 karlar og 10 konur. Til að fá þátttökurétt þarf maður að fara í gegnum erfiða forkeppni. Þar tóku um 100 karlmenn þátt. Í lokinn stóð eftir einn nakinn sigurvegari.

Eftir að hann náði þessum merka árangri birtust nektarmyndir af Pétri í fréttamiðlum um alla Skandinavíu. Fyrr en varði var hann kominn allsnakinn í sigurvímu á forsíður íslenskra fjölmiðla. „Móðir mín sagði að það væri ekki líft í vinnunni hennar," segir Pétur. Hann segir afa sinn næstum hafa kafnað af hlátri. En fjölskyldan tekur vel í þetta uppátæki.

„Svo var kærastan mín þarna úti með mér og er bara mjög stolt," segir Pétur. Hann er því heitbundinn svo íslenska kvenþjóðin getur hætt að láta sig dreyma um þennan mikla afreksmann.

Leiða má að því líkur að Hróarskelduhátíð sé ekki aðili að alþjóðlegum íþróttasamböndum. Því er Pétur því miður ekki gjaldgengur í forval fyrir kjör íþróttamanns ársins.

Pétur hefur hingað til ekki gefið sig mikið að spretthlaupi. „En nú er ég náttúrlega að fara að mæta aftur á næstu hátíð til að verja titil," segir hann. „Fólk má því búast við því að sjá mig nakinn á hlaupabrettinu í Worldclass."

Aðspurður segist Pétur hreint ekki vanur því að hlaupa nakinn. „Þetta var náttúrlega að sveiflast út um allt. En ég var ekkert að hugsa um það," segir Pétur. Hann beit bara á jaxlinn og hljóp. Eina hugsunin sem komst að var: Ekki detta!

Það hefur vakið athygli fólks hversu Pétur er myndarlega vaxinn neðan mittis þrátt fyrir að hafa hlaupið 400 metra á harðaspani úti í kulda. Pétur gerir lítið úr þessari augljósu staðreynd. „Ég held nú bara að verandi Íslendingur hafi ég haft þetta umfram aðra keppendur. Það er kaldara hér en annars staðar. Svo þetta var ekkert svo kalt."


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×